Framboðsyfirlýsing

Kæru vinir og vinkonur!

Ég býð mig fram í 4-5 sæti í forvali Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í Reykjavík.

Ég hef hug að því að vinna með flottum hópi fólks til að gera borgina að betri borg! Ég hef verið virkur í VG síðan 2013, frá 2014 hef ég verið varamaður í hverfisráði Grafarvogs og svo tók ég við sem formaður í hverfisráði Grafarholts og Úlfarsárdals haustið 2016.

Ég vil koma að því að skapa barnvæna borg með góðar almenningssamgöngur, þar sem að íbúalýðræðið er virkt með góðum og öflugum hverfisráðum. Ég vil koma að því að skipuleggja borg þar sem það skiptir ekki máli í hvaða hverfi maður er til að sækja þá nærþjónustu sem við þurfum á að halda og almenningssamgöngur nýtist okkur hvert sem er.

Börnin eru framtíð landsins og því þurfum við að huga að þeirri þjónustu sem við bjóðum uppá fyrir fjölskyldur í borginni okkar. Öll þjónusta sem borgin getur boðið þeim yngstu frá byrjun er af hinu góða til að bæta stöðu barnafjölskyldna í borginni. Leikskólar og önnur þjónusta þurfa að vera í stakk búin til þess að taka á móti þeim þegar fæðingarorlofi lýkur. Að sama skapi þurfum við að koma til móts við börnin í grunnskóla og miða að þörfum hvers og eins. Hlúa að þeim einstaklingum sem finna sig ekki innan skólakerfis og finna farveg þar sem börnin geta upplifað besta umhverfið til að þroskast og dafna. Á þann hátt getum við unnið að markvissu forvarnarstarfi til að styðja við jaðarhópa á sem jákvæðastan hátt. Með því að hlúa að börnunum, í góðu samfélagi og virkum forvörnum búum við til betri borg.

Eitt af mikilvægustu verkefnum næsta kjörtímabils verður að koma á fót úrræðum fyrir jaðarsetta hópa. Hvort sem það varðar geðheilbrigði, heimilislausa eða jaðarsetta unglinga sem passa hvergi inn í réttu boxin til þess að fá þá þjónustu sem þessir einstaklingar þurfa á að halda.

Hver er ég? Ég heiti Ragnar Karl og er uppeldis- og tómstundafræðingur. Ég hef unnið í meira en áratug með börnum og unglingum, bæði í uppeldis-, félags- og meðferðarstarfi og nú síðustu ár hef ég verið forstöðumaður á frístundaheimilum. Ég er uppalinn og nú búsettur í Grafarvogi, er kvæntur Sigurlaugu H. S. Traustadóttur félagsráðgjafa og saman eigum við Hrafnhildi Ásdísi 6 ára og Júlíus Kára 3 ára.

Ég tel mig hafa þekkingu og reynslu til þess að nýtast vel á þessum vettvangi og til að vinna að því að bæta þjónustuna í okkar góðu borg.

No Comments

Leave a Reply

EINHVERJAR SPURNINGAR EÐA VANGAVELTUR?

HAFÐU ÞÁ SAMBAND


Ef það er eitthvað sem þér liggur á hjarta eða vilt komast í samband við mig, þá ekki hika við að hafa samband og ég mun svara þér!

SENDA PÓST