Er of mikið af hraðahindrunum í Reykjavík?

Hraðakstur í íbúðagötum er eitt af þeim atriðum sem fólk hefur mestar áhyggjur af. Sumt fólk keyri óeðlilega hratt í hverfum, sem skapar bæði hávaða og slysahættu. Til að hafa hemil á umferðarhraða hafa íbúar krafist þess að komið verði upp hraðahindrunum á ýmsum stöðum innan hverfa. Gott dæmi er Grafarvogur, frá því að hverfið fór að byggjast upp hefur verið bætt við stöðugt fleiri hraðahindrunum.

Nú er svo komið að mörgum þykir nóg um og sumir íbúar kvarta undan því að of mikið sé af hraðahindrunum í hverfinu. Ég hef heyrt svipaða gagnrýni í öðrum hverfum.

Hraðatakmarkanir eru nauðsynlegar
Allir eru sammála um að takmarka verður umferðarhraða á svæðum þar sem börnin okkar eru á ferð. Börn fara á milli leikvalla, spyrja eftir vinum og ganga í skóla og þurfa stundum að fara yfir götur. Við þurfum að kenna börnunum okkar á umferðareglurnar, og hvað þau þurfi að varast í umferðinni. Við þurfum að fylgja yngstu börnunum í umferðinni, sýna þeim hvar er best að fara yfir götur eða hvar þau geti notað undirgöng eða göngubrýr.

Ábyrgð okkar sem ökumanna er ekki minni! Við verðum að muna að það eru börn og annað fólk á ferð í umferðinni sem þarf að taka tillit til. Við eigum að virða hámarkshraða! Í námunda við skóla og í íbúðagötum er hámarkshraðinn 30 kílómetrar á klukkutíma. En því miður dugar það ekki til, þá þarf að setja upp hraðahindranir til að minna ökumenn á að hægja á sér.

Fýlukallar og þrengingar
Vandinn við hraðahindranir er að ökumenn hafa tilhneygingu til að gefa í milli þeirra, og þá vaknar krafa um fleiri hraðahindranir. Afleiðingin er aukinn hávaði, sliti á bílum og aukin mengun, án þess að hraðakstri hafi verið útrýmt. Önnur lausn sem hefur verið gripið til víða eru þrengingar, sem eru litlu vinsælli meðal ökumanna en hraðahindranirnar.

Annarsstaðar hafa verið sett upp hraðaskilti sem annaðhvort blikka þegar ekið er of hratt eða það kemur bros- eða fýlukarl eftir því sem við á. Það þarf einnig að vara sig á því að vera ekki með of mörg afbrigði af hraðatakmörkunum á stuttum köflum. Ég hef ekki lengur tölu á því hversu margar ólíkar tegundir eru af hraðahindrunum í Grafarvoginum. Höfum þetta einfalt!

Hraðamyndavélar
Ef við viljum vinna að öruggri umferð í hverfinu okkar, með þægindi að leiðarljósi og draga um leið úr sliti á ökutækjum, þá er vert að skoða þá leið að fækka hraðahindrunum og setja upp hraðamyndavélar í íbúðargötum. Samskonar myndavélar og eru núna sumstaðar á þjóðvegum: Hraðaksturssekt hefur meiri fælingarmátt en blikkandi fýlukall.

Höfundur er Grafarvogsbúi, varamaður í hverfisráði Grafarvogs og skipar 13 sæti á framboðslista VG fyrir borgarstjórnarkosningarnar

Greinin birtist fyrst á visir.is

No Comments

Leave a Reply

EINHVERJAR SPURNINGAR EÐA VANGAVELTUR?

HAFÐU ÞÁ SAMBAND


Ef það er eitthvað sem þér liggur á hjarta eða vilt komast í samband við mig, þá ekki hika við að hafa samband og ég mun svara þér!

SENDA PÓST