Borgin þarf að gera meira til að draga úr plastmengun, en ábyrgðin er líka okkar

Plastmengun í drykkjarvatni og hafinu umhverfis Ísland hefur verið mikið til umræðu undanfarið. Sem betur fer er vandamálið hér á landi minna en víða annarstaðar. Magn örplasts í drykkjarvatni borgarbúa er t.d. aðeins brotabrot af því sem gerist í öðrum löndum. En hver einasta ögn er einni ögn of mikið, og plastruslið er ekki bara lýðheilsuvandamál, það er ömurlegt lýti á borgarlandinu. Við verðum að taka höndum saman um að eyða þessu vandamáli.

Borgin þarf að gera betur

Það er vitað að bróðurparturinn af öllu plasti í sjónum kemur af landi. Íbúar Grafarvogs þekkja það vandamál mjög vel. Eftir hressilegan storm eru runnar og beð full af plastpokum og öðru rusli. Annað eins fýkur á sjó út.

Plastpokabann er mikilvægt en dugar ekki til. Borgin þarf að gera sitt til að koma í veg fyrir fjúkandi rusl með því að fjölga ruslatunnum á förnum vegi. Það þarf líka að passa betur upp á að plastrusl safnist ekki upp í kringum grenndarstöðvar þaðan sem það svo fýkur í burt í næsta roki.

Ábyrgðin er þó á endanum okkar sjálfra

Mikilvægasta skrefið til að draga úr plastmengun verður hins vegar ekki stigið af borginni, heldur okkur borgurunum. Það er ekki nóg að fjölga grenndarstöðvum eða bjóða fólki upp á flokkunartunnur: Við þurfum sjálf að vera duglegri að flokka ruslið.

Samkvæmt tölum frá Sorpu jókst magn plasts sem fór í endurvinnslu frá heimilum um 130% í fyrra. Engu að síður er einungis 10% af plasti sem fellur til endurunnið. Afgangurinn er urðaður á öskuhaugum. Þar brotnar plastið smám saman niður í örplastagnir sem enda með einum eða öðrum hætti í náttúrunni.

Fullorðna fólkið þarf að gera betur

Nú eru margir skólar grænfánaskólar þar sem sjálfbærni og sorpflokkun eru fléttuð inn í annað nám. Foldaskóli er einn þessara skóla. Þegar ég var strákur var ég í Foldaskóla og í dag á ég barn í þeim skóla. Og mikið hefði ég viljað fá þá kennslu í umhverfisvernd sem börnin mín munu fá! Það er samt ekki nóg að börnin fái fræðslu um umhverfisvernd og sorpflokkun, við verðum að vera móttækileg þegar þau koma með þessa þekkingu heim.

Við fullorðna fólkið þurfum nefnilega að grípa boltann og fara fyrir með góðu fordæmi og innleiða umhverfisvernd, sjálfbærni og sorpflokkun í okkar daglega líf, inni á heimilinu. Við getum ekki bara ætlast til þess að skólarnir og borgin leysi plastvandamálið. Við þurfum sjálf að axla ábyrgð og breyta lifnaðarháttum okkar.

Því plastið sem við flokkum ekki í dag mun enda í drykkjarvatni barnanna okkar.

Ragnar Karl Jóhannsson

Höfundur er Grafarvogsbúi og skipar 13 sæti á framboðslista VG fyrir borgarstjórnarkosningarnar

Þessi grein birtist fyrst í Grafarvogsblaðinu aprílútgáfunni 2018

No Comments

Leave a Reply

EINHVERJAR SPURNINGAR EÐA VANGAVELTUR?

HAFÐU ÞÁ SAMBAND


Ef það er eitthvað sem þér liggur á hjarta eða vilt komast í samband við mig, þá ekki hika við að hafa samband og ég mun svara þér!

SENDA PÓST