Borgarlína ein og sér er ekki málið!

Eitt af stóru átakamálunum í þessum kosningum er borgarlínan. En meðan sumir frambjóðendur hafa efasemdir um borgarlínuna virðast allir sammála um að það þurfi að efla almenningssamgöngur.

Ég held að það sé augljóst að við þurfum á borgarlínu að halda til að efla almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Það er sérstaklega hagsmunamál okkar sem búum austan Elliðaráa.

Borgarlínan er hagsmunamál úthverfanna

Því þrátt fyrir alla þéttingu byggðar í miðbænum og eldri hverfum borgarinnar er ljóst að úthverfi borgarinnar munu halda áfram að vaxa. Samkvæmt breytingum á deiluskipulagi fyrir Úlfarsárdals á t.d. eftir að fjölga um 69 íbúðir innan hverfis og svo á að fara af stað með uppbyggingu á nýju hverfi upp á 353 íbúðir og hús. Er þetta bara hluti af þeirri uppbyggingu sem fyrirhuguð er í framtíðinni í úthverfum borgarinnar og mun flestir af þeim sem flytja í þessi hverfi sækja vinnu eða skóla miðsvæðis í Reykjavík.

Ef allt þetta fólk mun ferðast eitt á sínum fjölskyldu og einkabílum mun það aðeins þýða eitt: Umferðarþunginn í Ártúnsbrekkunni, sem er nógu mikill nú þegar, mun aðeins aukast.

Það er því eitt allra stærsta hagsmunamál okkar sem búum í úthverfunum að sem allra flestir geti ferðast með almenningssamgöngum. Með tilkomu borgarlínu er hægt að ferja fleira fólk í einu á milli staða en einkabíllinni gerir án þess að taka meira land undir akreinar eða bæta bílum á þær akreinar sem eru fyrir.

Við þurfum líka strætó í hverfin

Borgarlínan er samt engan veginn nóg fyrir okkur sem búum í austurhluta borgarinnar. Til að borgarlínan nýtist okkur sem best, þarf að auka á almenningssamgöngurnar inn í hverfunum og milli hverfa.

Í dag eru rúmlega 47% íbúa Reykjavíkur sem búa austan Elliðaár, en almenningssamgöngur gera að mestu leiti ráð fyrir að allir séu á leið í miðbæinn. Sem er skiljanlegt að mörgu leiti, því að meirihluti þeirra sem búa í úthverfunum sækja vinnu eða nám vestar í borginni. Það eru samt ekki allir sem þurfa að komast niður í bæ. Margir eru í þeim sporum að fara á milli hverfa til að fara í vinnu eða sækja sér aðra þjónustu.

Þetta er sérstaklega áberandi í Grafarholti og Úlfarsárdal. Þjónustumiðstöð Grafarholts og Úlfarsárdals og heilsugæsla íbúa hverfanna er t.d. í Árbæ. Almenningssamgöngur milli þessara hverfa eru hins vegar í skötulíki, svo vægt sé til orða tekið. Það þarf líka að tryggja að börn komist á íþróttaæfingar með strætó á meðan uppbygging Framsvæðisins er í fullum gangi.

Tengjum Grafarholtið og Árbæinn betur

Þegar við skilgreinum nærþjónustu fólks þurfum við að skipuleggja almenningssamgöngur innan hverfanna og á milli þeirra með það fyrir augum að strætó sé raunverulegur valkostur fyrir fullorðna og börn.

Borgarlínan er framtíðarlausn á samgöngumálum borgarinnar. En meðan við bíðum eftir því að hún verði að raunveruleika þurfum við að efla og byggja upp strætósamgöngur í hverfunum.

Ragnar Karl Jóhannsson, er formaður hverfisráðs Grafarholts og Úlfarsárdals og skipar 13 sæti á framboðslista VG fyrir borgarstjórnarkosningarnar 26 maí.

Greinin birtist fyrst í apríl blaði Árbæjar og Grafarholts.

No Comments

Leave a Reply

EINHVERJAR SPURNINGAR EÐA VANGAVELTUR?

HAFÐU ÞÁ SAMBAND


Ef það er eitthvað sem þér liggur á hjarta eða vilt komast í samband við mig, þá ekki hika við að senda mér póst á ragnar@ragnarkarl.is og ég mun svara þér!